31.8.2008 | 12:43
Ýmislegt og allt í kring....................
Hef ekki verið duglegur að blogga sem endranær svo sem, unaðslega andlaus og afslappaður. Fór í langt sumarfrí sem er að enda þessa dagana. Ég hafði ekki tekið mér frí síðan 1991, dauðskammast mín eiginlega að segja frá því, en satt er það nú samt. Mér var rænt þegar ég kom til Íslands þann 1 júlí, og var fluttur herskildi til Bolungarvíkur. Var þar í stórkostlegri herkví í 5 daga. Ekki gerði ég samt víðreist á Vestfjörðum, fór samt til Hesteyrar og í Tungudal inn af Ísafirði. Það var gott. Veðrið lék við mann og gestrisni Ylfu og Halla var fyrirtak í alla staði. Hafi þau hjartans þakkir fyrir enn og aftur. Blessuð börnin þeirra, ég eignaðist þrjú Skáafabörn í viðbót og er þeim mikið að fjölga. að ógleymdri tíkinn, hvað heitir hún aftur? Lærði mikið í sultugerð þennan tíma, held að frú Ylfa sé vestfjarðarmeistari í þeirri iðn. Nógu er hún fjölbreytt hjá henni sultan og GÓÐ.
Ferlegt er annars að fara svona með sig að taka aldrei frí. Mér fannst óhugnanlegt að uppgötva það hversu mikill vinnufíkill ég er eiginlega orðinn. Fékk heldur betur fráhvarfseinkenni fyrstu dagana, gekk stundum um með kökk í hálsinum yfir því að vera ekki að gera neitt. Ég þurfti að taka mig sjálfan heldur betur í gegn og er ennþá að því. Þvílík fásinna að halda það að maður sé ómissandi. Þetta nálgast sturlun, eigingirni og kontrólsýki. Það er eins gott að láta sér þetta að kenningu verða. Gleyma því aldrei að maður kemur í manns stað. Ég hef því tekið hátíðlegt loforð af sjálfum mér að taka mér 6 vikna frí á hverju ári héðan í frá. Og ég ætla að standa við það.
Ég hef verið mikið hugsi að undanförnu hvernig allt breytist á undraverðum hraða. Sumar breytingar verða til eingöngu breytinganna vegna. Aðrar eru þarfar og góðar. En flestar mættu svo sem missa sín og á ég þar við breytingarnar endalausu í íslenzku skólakerfi. Þetta er með ólíkindum hvernig látið er og bitnar þetta fyrst og fremst á kennurum blessaðra barnanna. Börnin breytast lítið frá ári til árs, það er að segja þarfir þeirra. Börn eru ekki fullorðið fólk. Þau þurfa leiðbeiningar um val, geta ekki alltaf gert sér grein fyrir hvað þau eiga að velja. Þetta er kannski svona allsstaðar, en mér finnst þessi breytingaæði mikið vandamál á Íslandi. Væri nú ekki þörf að taka þetta allt til endurskoðunar og fara nú einusinni eftir þörfum barnanna en ekki rannsóknar og skýrsluhöfunda. Ég vildi ekki vera í sporum kennara á Íslandi í dag, það er eitt sem víst er. Ég óska þeim öllum velfarnaðar í starfi.
Nú er herra Sigurbjörn Einarsson horfinn sjónum okkar. Ég átti þeirri hamingju að fagna að kynnast honum mæta vel. Kynni okkar hófust norður á Ólafsfirði, hann var kallaður til að vera viðstaddur ferminguna okkar krakkanna sem fædd eru 1951. Vorum sem sagt fermd undir eftirliti biskups. Ég sagði það einu sinni við hann að ég hefði verið fermdur undir hans eftrliti, "og ekki held ég það Jón minn", svaraði hann, "ætli það var einhver annar sem var undir eftirliti". Meira var ekki rætt um þau mál. Það er skrýtið að vera kominn hátt á sextugsaldur og alltaf var þessi maður einhversstaðar mér nálægur. Hittumst oft, var hjá honum og frú Magneu í boðum. Að kyrðardögunum ónefndum, þvílíkur fjársjóður minninganna. Það er rík þjóð sem hefur fengið að njóta þvílíks stórmennis sem herra Sigurbjörn Einarsson var. Hann er hér með trega kvaddur, þó um leið gleði og þakklæti fyrir allt og allt. Blessuð sé minning herra Sigurbjörns Einarssonar og frú Magneu Þorkelsdóttur. Öllum þeirra börnum og barnabörnum og barnabarnabörnum og fjölskyldum þeirra er hér með vottuð mín innilegasta samúð.
Nú er ég kominn heim til Amsterdam aftur. Tónlistarháskólinn var settur með stæl í fyrradag. Mikið hlakka ég til að takast á við þessa nýju stöðu þó ég sé nú þegar búinn að taka við henni formlega og byrjaður að vinna. Skólinn er ekki stór, um 600 nemendur held ég, eitthvað í þá veru. Vonandi mun þetta allt ganga vel. Íslendingarnir allir komnir og búnir að fá ibúð skilst mér. Þau eru dugleg. Þetta nám er töluvert öðruvísi enn á Íslandi, miklu meiri sjálfstúdía og stendur þetta allt of fellur með þeim sjálfum, nemendunum. Skólinn er að hluta til í gömlu klaustri og er klausturgarðinum haldið við eins og munkarnir gerðu hér á öldum áður. Hann tilheyrir háskólanum og er gaman að sjá allt þetta unga fólk slappa af í þessum dýrlega umhverfi, lesa í bók, læra eitthað utanað þegar gott er veður eins og í dag tildæmis. 27 stiga hiti, heldur heitt fyrir mig. Hef ekki orku að fara út í þessa moðsuðu. Sérkennilegt, ég hef ekki upplifað rigningu síðan um miðjan maí. Það var svo gott veðrið hérna í Hollandi alveg fram í júlí, þá fór ég til Íslands, þar ringdi ekki allavega á mig allan þann tíma sem ég var þar, eða sjö vikur. Svo kem ég hingað rétt uppúr miðjum mánuðinum og það dregur varla ský fyrir sólu. Mig er nú í rauninni farið að langa í dropann, helzt sem fyrst. Með beztu kveðju.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Menntun og skóli, Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:46 | Facebook
Um bloggið
Bumba
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kæri Nonni, það er ekki 27 stiga hiti hér norður í Ólafsfirði en það er 16 gráður á mælirinn á eldhúsglugganum og finnst mér það nokkuð gott. Hér er logn og dásamlegt en ég vildi alveg geta verið á svölunum hjá þér þarna í Amsterdam og fengið mér eitthvað svalandi í flott glas og svo gætum við kjaftað heilann helling.
Með kveðju og gaman að sjá að þinn er að blogga og það ekkert smá.
Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir, 31.8.2008 kl. 12:54
Heheheh, í hjartalóa litla, ég hef bara verið svo leiðis i sumarfríisvímu að undanförnu og eins og ég sagði, "unaðslega andlaus". Með beztu kveðju.
Bumba, 31.8.2008 kl. 12:56
Þú ert sannarlega sólarmegin í lífinu!
Sigurður Þór Guðjónsson, 31.8.2008 kl. 13:31
Segðu minn kæri, segðu. Með beztu kveðju.
Bumba, 31.8.2008 kl. 13:36
Gott að sjá þig aftur á blogginu vinur
Anna Ragna Alexandersdóttir, 31.8.2008 kl. 15:44
Takk Anna Ragna mín, ég ætla að reyna að vera duglegri að blogga í framtíðinni. Með beztu kveðju.
Bumba, 31.8.2008 kl. 15:54
Jæja Nonni minn, var annars að lesa í Fréttablaðinu í dag um heimgreiðslur sem Reykjavíkurborg var að samþykkja. Foreldrar geta þá fengið þá greiðslu sem annars hefði farið til að niðurgreiða leikskólapláss eða dagmóðurpláss, ákveði þeir að vera heima þangað til barnið er 24 mánaða.
Það sem mér fannst merkilegt við það var að þá stökk á fætur samfylkingarfemínisti og kvartaði sáran yfir því að þetta væri hins versta kvennagildra, vildi frekar fjölga leikskólaplássum (reyndar líka lengja fæðingarorlof, svo það sé nú á hreinu).
En það sem ég fór að hugsa um, er hvort femínistar séu ekki að gleyma sér í réttindabaráttunni. Ég, um mig, frá mér til mín og minn réttur. Ég er að reyna að velta því upp hvort barnið eigi ekki líka rétt og hvort það séu endilega hagsmunir barnsins að fara á stofnun um leið og það hættir á brjósti?
Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að því seinna sem barn byrji á leikskóla, því betra amk. heilsulega séð.
En auðvitað er betra að vera á góðum leikskóla heldur en á ömurlegu heimili. Getur verið að femínsitarnir treysti sjálfum sér ekki til að vera heima með börnin;)
kv VTraðarberg (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 22:31
... gaman að heyra hvað þú ert að bralla Nonni... endilega taktu þér frí framvegis... maður verður að sjá um sig sjálfur í flestu og það á einnig við í þessu máli... hver er sjálfum sér næstur...
... annars segi ég eins og maðurinn; það sem ég sé mest eftir í lífinu, er að hafa byrjað að vinna
Kveðjur til þín...
Brattur, 31.8.2008 kl. 22:36
Hann rær og hann slær........
.....þú hefðir átt að sjá glampann í augunum og breiða brosið þegar hann heyrði í afagamlaáská ;-)
söknum þín góði maður
kv.ATraðarberg (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 23:22
Sæl Traðarbergstófa litla og Rebbi minn góður. Þarna sérðu þetta uppspil þessarar samfylkingarpútu, allir út af heimilunum. Því í ósköpunum má ekki íslenzk ung kona vera móðir í friði? Eða íslenzkur ungur faðir? Gæturðu hugsað þér að vera án þessa tímabils sem þú ert að upplifa á hverjum degi, ja eða þið? Það efast ég um. Út úr svona upphlaupum lesum við karlmenn kvenfyriritningu á hæzta stigi og kvenkúgun innan kvenhreyfinganna sjálfra. Þetta á að stoppa og það STRAX. Þetta er ein af ástæðunum að ég er ekki feministi og mun aldrei verða. Ég sé enga réttindabaráttu þarna V minn í garð kvenna heldur. En réttindi barnanna, á þau er aldrei minnst. Þau eru ekki til. Ég spyr, eru ekki réttindi barnanna að alast sem mest upp hjá foreldrum sínum og dvelja sem lengst í þeirra föður og móðurlegu ummsjá? Ég hélt að flest þjóðfélög ætluðust til þess. Kannski hef ég misskilið þetta alltsaman. Guð minn góður hvað börnin ykkar eru heppinn að fæðast í ykkar faðm elskurnar mínar. Það ætti að vera sýnikennsla á heilbrigðu heimilshaldi og heilbrigðum heimilsbrag og fullkominni móður og föðurást á heimili ykkar. Það meina ég. Hef ekki í mörg ár upplifað jafnmikla fegurð. Með beztu kveðju.
Bumba, 31.8.2008 kl. 23:29
Elsku A mín og ljósin mín öll. Ykkar er ábyggilega sárar saknað hérna megin það er eitt sem víst er, elsku englanórinn hans afa gamla á ská. Þau verða bæði komin um fermingu þegar afi kemur heim og syngur fyrir þau í október. Mikið hlakka ég til. Verð í bandi, eða böndum, hehehehe. Gæti hringt í ykkur á klukkutíma hverjum. Með beztu kveðju.
Bumba, 31.8.2008 kl. 23:33
Sæll Gilli minn. Já það er gaman að lifa. En heimurinn er nú farinn að skorpna í kringum mig og vonandi þá fer nú að rigna fljótlega. Góður, hinn vinnulati, heheheeh var það nokkuð Toni heitinn Jónu? Uss ekki segja að ég hafi nefnt hann á nafn. Með beztu kveðju.
Bumba, 31.8.2008 kl. 23:35
Jæja, já Nonni minn ekki dugði þér fríð mér í vil, hef nú hugsað mér að setja þig í farbann næst þegar þú mætir í fjörðinn þá fæ ég máski svona 3-5 sekúndur með þér.
Nonni minn þetta átti að vera tvær til þrjár vikur ég á orðið svo mikið upp safnað frí inni hjá þér.
Nú er 1. september mættur og hún mamma mín er 87 ára.
Kærleiks kveðja Ásgerður
egvania, 1.9.2008 kl. 00:04
Gaman að lesa og flott að þú skulir vera að gera þér ljóst gildi sumarfrísins Maður er nú sem betur fer alltaf að læra eitthvað nýtt
Jónína Dúadóttir, 1.9.2008 kl. 07:31
Sæl Ásgerður mín. Hugsa sér eru 37 ár síðan ég var í fimmtugsafmælinu hennar mömmu þinnar, og ég sem er varla orðin þrítugur. Hugsa sér hvað aldur er afstæður. Kem í fjörðinn í byrjun október. Til hamingju með daginn og gömlu konuna. Með beztu kveðju.
Bumba, 1.9.2008 kl. 07:52
Þakka þér fyrir Jónína, það ersvo mikilvægt að uppgötva þetta, heldur betur. Með beztu kveðju.
Bumba, 1.9.2008 kl. 07:53
Urta heitir tíkin og er þessa dagana að láta r... sér. Hún er á lóðaríi og bakkar upp að hvaða hundi sem hún rekur augun í!! Gaman annars að uppgötva að þú sért að skrifa áfram. Hér er nú bara sextán stiga hiti, nóg fyrir mig, berin eru dásamleg og ég tíni og tíni......
Hafðu sjálfur þökk!
Ylfa Mist Helgadóttir, 1.9.2008 kl. 14:55
Nonni minn ! Gaman að þú sért farin að blogga aftur,skemmtilegur pistil þetta.Ekki efast ég um að þér hafi liðið vel fyrir vestan.Bolungavík og ég tala nú ekki um Hesteyri rokka feitt. Nonni alltaf frí hér eftir,´þú verður að gæta að þér fyrir okkur hin.
Rannveig H, 2.9.2008 kl. 11:29
Anna Ragna Alexandersdóttir, 4.9.2008 kl. 02:34
Mikið eru þau heppin þarna í Hollandi að hafa þig. Takk fyrir síðast Nonni, mér finnst að þú eigir bara að taka þér tólf vikur í frí næst, bæta upp fríleysi síðustu ára og koma í heimsókn vestur, þú ert aufúsugestur hér og örugglega alls staðar minn kæri
Ingunn Ósk Sturludóttir (IP-tala skráð) 4.9.2008 kl. 09:05
Anna Ragna Alexandersdóttir, 5.9.2008 kl. 18:09
Sæll Nonni "bumba".
Gaman er að heyra að þú fékkst frí og það í henni Bolungavík og Hesteyri.
Skemmtileg og góð frásögn og gangi þér sem best með skólann þinn.
Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 01:15
Þú ert hér með "klukkaður"
Róbert Björnsson, 10.9.2008 kl. 20:29
Þakka þér fyrir Þórarinn minn. Já ég er mjög ánægður með lífið og tilveruna hérna úti. Með beztu kveðju.
Bumba, 10.9.2008 kl. 22:16
Ja hérna Róbert minn, og hvað þýðir það að vera klukkaður? Með betu kveðju.
Bumba, 10.9.2008 kl. 22:18
hæhæ frændi;) það er allt bara æðislegt að frétta héðan;) allir hressir og svona ....vona að þú sért hress líka;)
Guðrún Fanney (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 23:30
Sæll Nonni minn!!!
Var að lesa bloggið þitt í fyrsta skipti. Allt gott að frétta héðan. Litli gaur er farinn að standa upp og er nú heldur upp með sér. Annars er ég farin að dusta rykið af röddinni. Fer í Siguðar Demenz skólann á morgnana þegar ég get. Í byrjun vikunnar þá var flott maður. Við Kristín báðar mættar kl. 09:00 að góla frábær stemning á milli herbergja. Mér finnst þetta frábært og fæ mikð út úr því að syngja núna.
KNús til þín, Magnea
magnea (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 22:45
Anna Ragna Alexandersdóttir, 13.9.2008 kl. 17:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.