Sumardagurinn fyrsti 2008, að kveldi kominn.

Mikið er þetta fallegur siður að eiga sumardaginn fyrsta að hátíðisdegi. Það er gott að finna hversu ríkur hann er í okkur íslendingum, okkur sem óðum erum að tapa gömlum hefðum og siðum. Það var gott að taka sér frí frá kennslu í dag, hitta vinina, lenda í GRJÓTMUNLNINGSVÉL, og fara svo í barnaafmæli þar sem skáafabarnið mitt verður eins árs á morgun. Í því tilefni var okkur öfum og ömmum boðið til veizlu. GRJÓTMULNINGSVÉLIN er nuddarinn minn, ég kalla hann nú þegar nuddarann minn, fór í fyrsta skiftið til hans og ætla að fara aftur á miðvikudaginn. Hann ætlaði hreint og beint að drepa mig. Ég hljóðaði og baðst vægðar hvað eftir annað, en það var enga miskunn að fá. Já, sumardagurinn fyrsti sýndi mér hversu illa farinn ég er eftir 170% kennslu í vetur. Þó var ég búinn að minnka hana. Þvílíkt fífl getur maður verið að ganga svona fram af sjálfum sér, geta aldrei sagt nei, halda kannski einnig að maður sé á einhvern hátt ómissandi, þvílíkt fífl. Á hverju ári segi ég við sjálfan mig, vinna minna, vinna minna, en áður en varir er maður dottinn í þessa andstyggilegu vinnufíkn, unir sér aldrei hvíldar fyrr en maður seint og um síðir meir dragnast heim til sín á augnahárunum og hendir sér upp í bólið örmagna. Þvílíkt fífl. Nóg um það.

Innan skamms mun skáafabarnið mitt eignast systkini, annað hvort í nótt eða einhvern næstu daga. Það væri gaman ef systkinin eða bræðurnir ættu sama afmælisdag. Þetta er svo guðdómlegt fólk, ég vildi óska að þau eignuðust bara mörg börn í viðbót. Heimurinn verður betri af svona góðu fólki, aldrei of margt af því. Uppáhaldsfólkið mitt að öllum hinum undanskildum. Gleðst í hvert skifti sem ég sé þau og meyrna einnig, sérkennilegt hvernig væntumþykja getur gert mann meyran. Það er líka gott að vera meyr svona á stundum.

Á morgun er langur kennsludagur aftur, kenni frá klukkan 09 til klukkan 18. Vona að ég komist í gegnum daginn, það ætti svo sem ekki að verða vandi, það er komið sumar, allt léttist, þá sérstaklega brúnin. Og annað kvöld er mér boðið í mat, hitti þá líka gott fólk, einnig uppáhaldsfólk. Hlakka til. Ég þekki gott fólk, virkilega gott fólk. Á góða nágranna, prýðilega. Hvað getur maður óskað sér meir? Er þakklátur fyrir að hafa átt yndislegan sumardaginn fyrsta, jafnvel þó ég hafi lent í GRJÓTMULNINGSVÉL. Tounge

 GLEÐILEGT SUMAR BLOGGVINIR SEM OG ALLIR AÐRIR SEM BLOGG ÞETTA LESA.  Með beztu kveðju.Wizard


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég þekki eina svona "grjótmulningsvél" sem pínir rosalega - en það er með ólíkindum hvað hún nær miklum langtímaárangri - það er málið.

Til hamingju með skáafabarnið og vonandi gengur vel með hið ófædda líka. Hefurðu tekið eftir því hvað það er gaman að vera afi? 

Gleðilegt sumar og takk fyrir þínar hlýlegu athugasemdir á mínu bloggi. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.4.2008 kl. 23:28

2 Smámynd: Bumba

Þakka þér sömuleiðis Lára Hanna. Það er svo mikið gaman að fylgjast með pistlunum þinum, maður hefur ekki alltaf pælt um of í mörgu af því sem þú hefur skrifað. En oftar en ekki vakið mig til umhugsunar. Hlakka til að heyra meira frá þér. Með beztu kveðju kæra bloggvinkona. 

Bumba, 24.4.2008 kl. 23:31

3 identicon

Sæll Bumba,

Flott nafngift SKÁAFI, hef aldrei heyrt það fyrr.

Gangi þér sem allra,allra best.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 10:11

4 Smámynd: Bumba

Hehehe  þakka þér fyrir. Nú er hann eins árs í dag pjakkurinn litli. Var að tala við mömmu hans og hún er ekki ennþá komin á stað, er orðin ansi búkonuleg. Með beztu kveðju.

Bumba, 25.4.2008 kl. 12:37

5 identicon

HEHEHEHEHE, er þetta þú sjálfur Nonni sem berð nafnið hans afa þíns og söngst með honum á kirkjuloftinu forðum. Hann Nonni sem fór í kapphlaup við hana ömmu mína og hún vann þig, okkur krökkunum til mikillar kátínu. (hef nú enn grun um að þú hafir svindlað á kellu og látið hana vinna. )Jón Þorsteinsson ég er Ásgerður Einarsdóttir og er alveg ferlega móðguð við þig ( nei nei segi nú bara svona ) ég gaf þér borðið sem hann langafi þinn smíðaði og hef ekkert heyrt frá þér um það hvort þér líkaði sú gjöf eður ei. Ég veit nú að þú hefur verið ánægður með þessa gjöf mína en vegna mikilla anna eins og ég hef lesið hér þá hefurðu haft um annað að hugsa.

                                     Kveðja Ásgerður í Ólafsfirði

Ásgerður Einarsdóttir (IP-tala skráð) 25.4.2008 kl. 22:42

6 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Gleðilegt sumar elsku Jón og takk fyrir öll fallegu orðin þín. Mikið er gaman að sjá þig kominn út úr skápnum

Hjartalóan.

Ylfa Mist Helgadóttir, 26.4.2008 kl. 00:40

7 Smámynd: Bumba

Elsku Ylfa mín, hjartalóan hans Nonna frænda, það er svo gaman að lesa pistlana þína og upplifa þennan ferska blæ frá Dumbshafinu hingað í þessa moðsuðu og mengun hérna í henni Vík. Hlakka til að sjá ykkur í sumar. Með beztu kveðju.

Bumba, 26.4.2008 kl. 01:29

8 Smámynd: Bumba

Sæl elsku Ásgerður mín. Þakka þér fyrir innlitið. Ég man vel eftir því að hafa farið í kapphlaup við Önnu gömlu á Strönd, ömmu þína, Diddu litlu, heheehhe. Eigum við bara ekki láta liggja á milli hluta hvort okkar hafi unnir kapphlaupið? En borðið, ég hélt að ég hefði fengið það frá systur þinn, Ástu litlu. Nóg um það, innilegar þakkir og er nú kominn tími á það að þú komir nú fram í Hólkot og sitjir við þetta margfræga borð og fáir þér nú kaffi og með því, það er að segja ef þú ert í bænum þegar ég er þar. Það virðast nú vera brögð að því elsku frænka mín. Annars smíðaði afi ekki þetta borð, þetta er borð sem hann og langamma fengu í brúðargjöf 1903 og var þá gamalt, hafði verið undir baðstofuglugganum í Hólkoti seint á nítjándu öld. Og nú er það komið heim til sín elskan, á sama stað (eða svipaðan) og farið að þjóna sínu sama gamla hlutverki eins og það gerði þar fyrir 120 árum eða svo. Þökk sé þér og systur þinni að við fengum þennan ættargrip aftur elsku Ásgerður mín. Hlakka til að sjá þig í sumar, verð þá mikið í Hólkoti. Vona að öllum heilsist vel. Með beztu kveðju.

Bumba, 26.4.2008 kl. 09:14

9 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

    Held að hún móðir mín eigi eina svona "grjótmulningsvél", sem merkilegt nokk, hún sækir töluvert í, þó hún hringi svo emjandi af kvölum í dótturina, hjúkkuna, á eftir og biðji um ráð og samúð.

   Gleðilegt sumar, Bumba.

Sigríður Sigurðardóttir, 26.4.2008 kl. 16:44

10 Smámynd: Bumba

Ó hvað ég skil hana móður þína. Þakka innlitið og sumarkveðjurnar, sömuleiðis með þær og einnig BARÁTTUKVEÐJUR. Með beztu kveðju.

Bumba, 27.4.2008 kl. 00:08

11 Smámynd: Brattur

... sæll Nonni minn Fríðu... ég var að keyra um í Mývatnssveit í síðustu viku, hlustaði á útvarpið eins og gengur og datt þá niður á var viðtal við þig ... mér fannst mjög gaman að heyra í þér og hvað þú hafðir að segja... ég á einnig diskinn þinn góða og set hann oft á þegar ég er að keyra um landið... alltaf gaman að heyra frá gömlum Ólafsfirðingum og þig hef ég held ég bara ekki séð í, veit ekki hvað, 20 ár eða svo? Gaman að þú skulir hafa komið þér fyrir í Hólkoti þar sem þú getur verið á sumrin... en heyrði í viðtalinu að þú ert að flytja til Hollands... gangi þér allt í haginn með það... ég verð örugglega eitthvað í firðinum í sumar líka t.d. 11.-13.júlí og svo skrepp ég kannski í veiði hjá honum Stebba á Þóroddsstöðum (Þú kannski manst að Alli bróðir heitir Aðalsteinn Stefán og því borðliggjandi að kalla hann Stebba á Þóroddsstöðum!)... það væri bara gaman að rekast á þig og aldrei að vita nema ég banki upp hjá þér, ef ég veit af þér á svæðinu...

Gilli Sigurveigar... bara Brattur...

Brattur, 27.4.2008 kl. 12:23

12 Smámynd: Bumba

Vertu alltaf velkominn Gilli minn, og komdu með óðalsbóndann með þér ef hann er svona lítillátur að líta inn til kotbændanna. hehehe. Með beztu kveðju.

Bumba, 27.4.2008 kl. 14:02

13 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Var að hlusta á viðtalið. Það var flott! Þú varst eins og þú hefðir aldrei gert annað en að vera í viðtölum. Lísa er líka indæll spyrjandi. Kann að vingast við viðmælendur. Það var sigurhljómur í þessu hjá þér, Nonni minn, eins og í næstsíðasta erindinu í sálmninum sem þú söngst í lokin. Bestu kveðjur frá öllum hérna.

Svavar Alfreð Jónsson, 27.4.2008 kl. 22:59

14 Smámynd: Linda

Hæ Bumba, ég sá að þú kallaðir þig fífl í færslunni hér fyrir ofan og ég mótmæli þessu orðið í annars frábærri færslu unnin af yndislegum manni. 

Engin er fífl, hinsvegar getum við sagt að fólk hefur misjafnlega góða framtíðarsýn Ég hef því miður haft mjög lélega framtíðarsýn, maður lifandi hvað ég er að borga fyrir það í dag

hafðu það sem allra best og Guð blessi þig og þína.

knús

Linda, 28.4.2008 kl. 00:36

15 identicon

Elsku Nonni gott að vita að að hann Nonni Fríðu ætlar að eyða sumrinu sem mest í Hólkoti í sumar, ég ætla að vera sem mest heima var að útskrifast á föstudaginn og þrái orðið að vera heima eftir fjögurra mánaða útivist. Ætla að skreppa til Danaveldis í tíu daga núna í maí komin tími á það. ( er nú ekki Grundtvig fyrir ekki neitt. ) Í för með mér verða hann Finnur minn, Ásta systir mín, Villi mágur minn og dætur þeirra Hulda og Erla. Ég ætti nú heldur að segja að ég verði áhangandi þeirra í þessari ferð en þeirra var viljinn svo að kerlingardruslan fer með. Ekki ætla ég að etja kapphlaup við þig eins og hún didda þín forðum, af gæsku þinni létir þú mig vinna. Nonni við sjáumst í sumar vertu viss ef að ég frétti af þér í Hólkoti þá mæti ég á svæðið. ( Nonni svona okkar á milli hafðu ekki hátt um það ) Pabbi þinn gaf Ástu systir minni borðið Villa fannst það ljótt svo að hún gaf mér það Finni fannst það ljótt en ég hélt í borðið, bauð Bergþóru það en hún afþakkaði það og nú átt þú borðið og njóttu vel og kaffi vil ég fá og það gott og að sjálfsögðu við borðið. Nonni þú ert perla nú er ég hætt.

Ásgerður Einarsdóttir (IP-tala skráð) 28.4.2008 kl. 10:19

16 Smámynd: Bumba

Sæll Svavar minn. Þakka þér fyrir, ég veit nú varla neitt verra en viðtöl eins og þú veizt. En það er satt, hún er afskaplega flínk hún Lísa Pálsdóttir. Æ, mér finnst ég aldrei hafa neitt frá að segja. Bið að heilsa öllum. Kv. Nonni.

Sæl Linda mín, gott að fá áminningu frá þér blessunin. Eg skal ekki kalla sjálfan mig fífl aftur, allavega ekki á prenti. Blessi þig Drottinn. Með beztu kveðju.

Sæl elsku Ásgerður mín. Þakka þér svarið elskan. Hlakka til að sjá þig í sumar í Hólkoti. Skemmtu þér vel í Danaveldi. Með beztu kveðju til ykkar allra. Nonni.

Bumba, 30.4.2008 kl. 01:02

17 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvað ertu að sleikja þig upp við þessa hjúkrunarfræðinga sem komu með ónot á ónot ofan á mína bloggsíðu. Ekki má maður blaka við þeim án þess að þeir helli sér yfir mann með þótta og yfirlæti. þær hafa vakið í mér viðbjóð á öllu sem heitir blogg.  En þú ert ekki með ónotin.

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.4.2008 kl. 22:20

18 Smámynd: Bumba

Æ, Sigurður minn, ég er sjálfur hjúkrunarfræðingur, það er að segja ég lauk ekki námi alveg, en ég vann við þetta í þó nokkur ár. Ég veit hversu erfitt þetta starf er og hversu oft það er erfitt að halda aftur af sér geðshræringum, tárum og öðrum ónotum. Maður lærir að vísu að halda sér í skefjum, en öll erum við nú mannleg og verðum þarafleiðandi kannski fráhrindandi þegar svo ber við. Þetta starf er forkastanlega illa launað miðað við ábyrgð og annað sem því lýtur. Ég vann sjálfur lengst við geðhjúkrun, hérna á Kleppi hátt á þriðja ár, USA í stuttan tíma og í Noregi í ár minnir mig tilsamans þó nokkurn tíma.

Það er svo oft kvartað yfir hjúkrunarfólki Sigurður minn, en stundum ættu þessar kvartanir heima hjá meðhöndlandi læknum. Yfirleitt kannski. Álagið á þessari stétt er vægast sagt ómennskt hérna á Íslandi sérstaklega eftir að þessi nýju lög komu um að senda alla sem fyrst heim hvort sem fólk getur verið heima eða ekki. Hef verið undanfarin 12 ár "professional" sjúklingur, 16 aðgerðir, svo ég veit dálítið mikið um þetta vinurinn. Hjúkrunarfólk er bara búið að fá nóg af þessu álagi og það skil ég vel. Þetta svokallaða Europian system sem fara á að innleiða, hef nú bara aldrei heyrt aðra eins dellu, skrýtið að það skuli ekki vera úti í Evrópu þar sem ég þekki frekar vel til. Einhver amerískur spýjukeimur þykir mér nú af þessu góði minn öllu saman. Með beztu kveðju vinur minn kær. Og góða nótt.

Bumba, 1.5.2008 kl. 00:40

19 identicon

Hefur þér aldrei dottið í hug að segja NEI......þegar þú ert beðin um ða taka meira að þér?Það er líka gott að kunna það

Þú ert duglegur kallinn minn og fær á þínu sviði.......svo ég ætla ekki að sletta neinum skít hérna þó ég eigi nóg af honum eins og þú sagðir hér í den.....he he he he gangi þér alltaf allt sem best í haginn og lærðu nú að segja nei......betra seint en aldrei

Júlíus Már Baldursson (IP-tala skráð) 3.5.2008 kl. 23:32

20 Smámynd: Bumba

Þú hefur lög að mæla elsku Júlli minn, ég skal sko sannarlega fara eftir því sem þú segir í framtíðinni. Þarf að leggja af um 50 kíló ef vel á að vera, ef ég fækka nemendum þannig að einn hverfur með hverju kílói þá verð í 12 í mínus þegar yfir lýkur, hehehehehehehe. Með beztu kveðju.

Bumba, 4.5.2008 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bumba

Höfundur

Bumba
Bumba
Hef áhuga á allskonar málum hvort sem mér koma þau við eða ekki!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG 0008

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband