Færsluflokkur: Menntun og skóli

Ýmislegt og allt í kring....................

Hef ekki verið duglegur að blogga sem endranær svo sem, unaðslega andlaus og afslappaður. Fór í langt sumarfrí sem er að enda þessa dagana. Ég hafði ekki tekið mér frí síðan 1991, dauðskammast mín eiginlega að segja frá því, en satt er það nú samt. Mér var rænt þegar ég kom til Íslands þann 1 júlí, og var fluttur herskildi til Bolungarvíkur. Var þar í stórkostlegri herkví í 5 daga. Ekki gerði ég samt víðreist á Vestfjörðum, fór samt til Hesteyrar og í Tungudal inn af Ísafirði. Það var gott. Veðrið lék við mann og gestrisni Ylfu og Halla var fyrirtak í alla staði. Hafi þau hjartans þakkir fyrir enn og aftur. Blessuð börnin þeirra, ég eignaðist þrjú Skáafabörn í viðbót og er þeim mikið að fjölga. að ógleymdri tíkinn, hvað heitir hún aftur? Lærði mikið í sultugerð þennan tíma, held að frú Ylfa sé vestfjarðarmeistari í þeirri iðn. Nógu er hún fjölbreytt hjá henni sultan og GÓÐ.

Ferlegt er annars að fara svona með sig að taka aldrei frí. Mér fannst óhugnanlegt að uppgötva það hversu mikill vinnufíkill ég er eiginlega orðinn. Fékk heldur betur fráhvarfseinkenni fyrstu dagana, gekk stundum um með kökk í hálsinum yfir því að vera ekki að gera neitt. Ég þurfti að taka mig sjálfan heldur betur í gegn og er ennþá að því. Þvílík fásinna að halda það að maður sé ómissandi. Þetta nálgast sturlun, eigingirni og kontrólsýki. Það er eins gott að láta sér þetta að kenningu verða. Gleyma því aldrei að maður kemur í manns stað. Ég hef því tekið hátíðlegt loforð af sjálfum mér að taka mér 6 vikna frí á hverju ári héðan í frá. Og ég ætla að standa við það.

Ég hef verið mikið hugsi að undanförnu hvernig allt breytist á undraverðum hraða. Sumar breytingar verða til eingöngu breytinganna vegna. Aðrar eru þarfar og góðar. En flestar mættu svo sem missa sín og á ég þar við breytingarnar endalausu í íslenzku skólakerfi. Þetta er með ólíkindum hvernig látið er og bitnar þetta fyrst og fremst á kennurum blessaðra barnanna. Börnin breytast lítið frá ári til árs, það er að segja þarfir þeirra. Börn eru ekki fullorðið fólk. Þau þurfa leiðbeiningar um val, geta ekki alltaf gert sér grein fyrir hvað þau eiga að velja. Þetta er kannski svona allsstaðar, en mér finnst þessi breytingaæði mikið vandamál á Íslandi. Væri nú ekki þörf að taka þetta allt til endurskoðunar og fara nú einusinni eftir þörfum barnanna en ekki rannsóknar og skýrsluhöfunda. Ég vildi ekki vera í sporum kennara á Íslandi í dag, það er eitt sem víst er. Ég óska þeim öllum velfarnaðar í starfi.

Nú er herra Sigurbjörn Einarsson horfinn sjónum okkar. Ég átti þeirri hamingju að fagna að kynnast honum mæta vel. Kynni okkar hófust norður á Ólafsfirði, hann var kallaður til að vera viðstaddur ferminguna okkar krakkanna sem fædd eru 1951. Vorum sem sagt fermd undir eftirliti biskups. Ég sagði það einu sinni við hann að ég hefði verið fermdur undir hans eftrliti, "og ekki held ég það Jón minn",  svaraði hann, "ætli það var  einhver annar sem var undir eftirliti". Meira var ekki rætt um þau mál. Það er skrýtið að vera kominn hátt á sextugsaldur og alltaf var þessi maður einhversstaðar mér nálægur. Hittumst oft, var hjá honum og frú Magneu í boðum. Að kyrðardögunum ónefndum, þvílíkur fjársjóður minninganna. Það er rík þjóð sem hefur fengið að njóta þvílíks stórmennis sem herra Sigurbjörn Einarsson var. Hann er hér með trega kvaddur, þó um leið gleði og þakklæti fyrir allt og allt. Blessuð sé minning herra Sigurbjörns Einarssonar og frú Magneu Þorkelsdóttur. Öllum þeirra börnum og barnabörnum og barnabarnabörnum og fjölskyldum þeirra er hér með vottuð mín innilegasta samúð.

Nú er ég kominn heim til Amsterdam aftur. Tónlistarháskólinn var settur með stæl í fyrradag. Mikið hlakka ég til að takast á við þessa nýju stöðu þó ég sé nú þegar búinn að taka við henni formlega og byrjaður að vinna. Skólinn er ekki stór, um 600 nemendur held ég, eitthvað í þá veru. Vonandi mun þetta allt ganga vel. Íslendingarnir allir  komnir og búnir að fá ibúð skilst mér. Þau eru dugleg. Þetta nám er töluvert öðruvísi enn á Íslandi, miklu meiri sjálfstúdía og stendur þetta allt of fellur með þeim sjálfum, nemendunum. Skólinn er að hluta til í gömlu klaustri og er klausturgarðinum haldið við eins og munkarnir gerðu hér á öldum áður. Hann tilheyrir háskólanum og er gaman að sjá allt þetta unga fólk slappa af í þessum dýrlega umhverfi, lesa í bók, læra eitthað utanað þegar gott er veður eins og í dag tildæmis. 27 stiga hiti, heldur heitt fyrir mig. Hef ekki orku að fara út í þessa moðsuðu. Sérkennilegt, ég hef ekki upplifað rigningu síðan um miðjan maí. Það var svo gott veðrið hérna í Hollandi alveg fram í júlí, þá fór ég til Íslands, þar ringdi ekki allavega á mig allan þann tíma sem ég var þar, eða sjö vikur. Svo kem ég hingað rétt uppúr miðjum mánuðinum og það dregur varla ský fyrir sólu. Mig er nú í rauninni farið að langa í dropann, helzt sem fyrst. Með beztu kveðju.


Nöfn?

Heyrði frábæran brandara á dögunum. Dóttursonur vinkonu minnar er tælega fimm ára og er á leikskóla eins og lög gera ráð fyrir. Hann heitir Mikael. Flestir í deildinni hans eða bekknum eða hvað þetta nú heitir heita þessum nýmóðinsnöfnum, Aron, Ljótur, Drengur, Brekil, Alexander, Þngill og nefnum það bara. Hann kom um daginn heim til sín og sagði við móður sína. " Það byrjaði nýr strákur í bekknum mínum í dag". "Nú?", sagði móðir hans. "Hann heitir nú skrýtnu nafni", segir barnið, "aldrei heyrt það fyrr". "Og hvað heitir hann elskan"?, spyr móðir hans. "Guðmundur ", var svarið. Með beztu kveðju.

Um bloggið

Bumba

Höfundur

Bumba
Bumba
Hef áhuga á allskonar málum hvort sem mér koma þau við eða ekki!
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG 0008

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 475

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband